Fréttir

felag rafeindavirkja

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ var haldin dagana 12 og 13 nóvember á Selfossi, líkt og síðustu ár. Á ráðstefnunni er leitast við að upplýsa trúnaðarmenn um stöðu mála hjá RSÍ, stöðu kjarasamninga og önnur mál sem í gangi eru hverju sinni.

Katrín Júlíusdóttir Iðnaðarráðherra ávarpaði fundinn og sagði hvaða verkefni eru í gangi hjá ráðuneytinu. Áhugavert var að heyra að mikill vöxtur er í hinum ýmsu fyrirtækjum þar á meðal CCP tölvuleikjafyrirtækinu sem þekktast er fyrir tölvuleikinn Eve-online. Þar er verið að fjölga störfum um 180. Netþjónabú eru mikið til umræðu og munu þau vissulega skapa fjölmörg störf fyrir rafiðnaðargeirann, fjölmörg þjónustu störf eru í kringum þau.

Því næst hélt Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ ávarp og kom hann víða við. Þessa dagana liggur það væntanlega þungt á fólki hverjar skattahækkanir verða og hvernig þær munu koma við launafólk.

Starfsemi starfsendurhæfingarsjóðs var kynnt, en Sigrún Sigurðardóttir hefur verið ráðin sem ráðgjafi fyrir RSÍ. Sigrún veitir einstaklingum aðstoð við að viðhalda og efla virkni til vinnu. Náið samstarf er við hvern einstakling með það að markmiði að aðstoða einstaklinginn við að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

RSÍ hefur einnig ráðið lögfræðinginn Halldór Oddsson. Sambandið hefur undanfarin ár greitt miklar fjárhæðir í lögfræðikostnað og mun sá kostnaður væntanlega lækka. Allir félagsmenn FRV og annarra félaga innan RSÍ geta leitað til Halldórs á viðtalstímum (þriðjudögum kl 10:00 - 12:00 og fimmtudögum kl 16:00 - 18:00 eða samkv. samkomulagi) eða í tölvupósti: halldor (hja) rafis.is Við hvetjum félagsmenn til þess að nýta sér þessa þjónustu!

Fyrirlesarar seinni daginn voru þeir Páll Skúlason, Háskóla Íslands og Stefán Einar Stefánsson, Háskólanum í Reykjavík. Páll fjallaði um það hvað gerðist í þjóðfélaginu og hvert við eigum að stefna, Stefán fjallaði um siðrof í samfélaginu.

Að lokum var hópavinna þar sem fjórir hópar fengu það verkefni að koma með framtíðarsýn RSÍ. Hópavinnan gekk mjög vel og var mikil ánægja með hana, það er mikilvægt fyrir sambandið að fá nýjar hugmyndir frá trúnaðarmönnum því trúnaðarmenn hafa tenginguna til félagsmanna. Þessar hugmyndir verða síðan nýttar til að styrkja starf sambandsins enn frekar.