Fréttir

felag rafeindavirkja

Miðstjórn RSÍ fundaði síðastliðinn föstudag og sendi frá sér eftirfarandi ályktun, ályktun Ályktun miðstjórnar RSÍ um atvinnumál 26. mars 2010 Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands átelur harðlega það ábyrgðarleysi sem stjórnmálamenn hafa sýnt undanfarið ár með þeim vinnubrögðum sem þeir hafa viðhaft. Alvarlegt ástand efnahags- og atvinnumála fer enn versnandi. Atvinnuleysi hefur aldrei mælst hærra og er að nálgast 20 þús. manns, þrátt fyrir að margir hafi horfið af vinnumarkaði og farið erlendis eða í nám. Allt bendir til að atvinnuleysi muni enn aukast, ef ekki verði gripið til öflugra varna. Leysa verður Icesave-deiluna og aðra óvissuþætti. Nýjar hagspár gera ráð fyrir of litlum hagvexti til þess að nógu mörg störf skapist til að það dragi úr atvinnuleysinu. Miðstjórn RSÍ krefst þess að alþingismenn sýni meiri ábyrgð í störfum sínum og taki höndum saman um endurreisn efnahagskerfisins og setji hagsmuni þjóðarinnar í forgang. Alþingi verður að vinna traust þjóðarinnar á ný og taka upp ábyrg vinnubrögð. Nóg er komið af hráskinnaleik stjórnmálamanna. Miðstjórn RSÍ krefst þess að ríkisstjórnarflokkar og stjórnarandstaða snúi bökum saman og hrindi efnahagsáætluninni í framkvæmd og gefi atvinnulífinu möguleika til þess að hún verði sá vegvísir út úr vanda kreppunnar sem til var ætlast.

Sveitafélög stöðva hvert verkefnið á fætur öðru með seinagangi og láta deiliskipulag standa í vegi framkvæmda, sem þegar eru á borðinu eins og mörg dæmi eru um. Þar má t.d. nefna ráðaleysi borgarstjórnar Reykjavíkur og stendur með því í vegi fyrir miklum byggingarframkvæmdum, eins og t.d. uppbyggingu stúdentagarða, sem eru fullfjármagnaðir og hafa verið tilbúnir til framkvæmda um nokkurt skeið. Launþegar og verkalýðshreyfingin hefur þegar axlað sína ábyrgð á leið Íslands út úr vandanum. Það er löngu kominn tími til að hætta að brjóta niður og stöðva vænleg verkefni, brýnna er nú þegar að ryðja braut þeirra verkefna. Það þarf að endurheimta fyrra atvinnustig og lífskjör sem fyrst. Það er hægt með því að setja atvinnusköpun í forgang, sérstaklega með fjárfestingum og vexti í útflutningsgreinum. Einungis ein leið er fær til þess að ná aftur sambærilegum kaupmætti og verja velferðarkerfið, það er að auka verðmætasköpun í landinu. Fram hafa komið hugmyndir um fjárfestingaverkefni upp á rúmlega 300 milljarða króna á ári næstu 3 árum. Orkutengd verkefni áttu að skila meira en 13 þúsund ársverkum og verkefni í einkafjármögnun um 3 þúsund ársverkum. Sprotafyrirtæki hafa verið að ráða fólk og benda réttilega á að með ákveðnari stuðningi sveitarstjórna og stjórnvalda væri hægt að ná mun lengra á þeim vettvangi. Það er ljóst að það mundi hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, takist að koma einhverjum hluta þessara framkvæmda af stað.

Miðstjórn RSÍ telur að lengra verði ekki gengið á þessari óheillabraut. Stjórnmálamenn eru með athöfnum sínum að stefna hagsmunum þúsunda heimila í óþarfa hættu og niðursveifla hagkerfisins verður mun dýpri og muni vara töluvert lengur en ástæður eru til.

Ályktun miðstjórnar RSÍ um Stöðugleikasáttmála 26. mars 2010 SA hefur sagt sig frá Stöðugleikasáttmála og gengur þar erinda útgerðarmanna. Með þessu er verið að skapa upplausn í stjórnmálum og er hún þó ærin fyrir. Þetta virðist gert til þess eins að tryggja eignarhald fárra á kvótanum. Einstaklinga sem hafa skuldsett þessa þjóðareign upp í topp og krefjast enn meiri forréttinda. Miðstjórn RSÍ fordæmir þessa ákvörðun og telur hana sýna mikið ábyrgðarleysi af hálfu SA, þar sem veri að gæta hagsmuna fárra á kostnað fjöldans.

Stöðugleikasáttmálinn var forsenda þess að launamenn sættu sig við frestun umsaminna launahækkana. SA hefur með ákvörðun sinni rofið þá sátt og rafiðnaðarmenn krefjast þess að þeirri launahækkun sem frestað var um síðustu áramót komi nú þegar til framkvæmda.

Launamenn hafa staðið við sitt og sýnt fulla ábyrgð og hafa þegar axlað sínar byrðar. Miðstjórn RSÍ felur fulltrúum rafiðnaðarmanna að koma þessum skilaboðum á framfæri við fyrirhugaðan formannafund aðildarfélaga ASÍ 29. marz næstk.