Fréttir

felag rafeindavirkja

Í gær var formannafundur ASÍ haldinn. Ástæða þessa fundar var sú að Samtök Atvinnulífsins (SA) óskuðu eftir því við Alþýðusamband Íslands (ASÍ) að komist yrði að samkomulagi vegna endurskoðunarákvæðis kjarasamninga sem skrifað var undir 17. febrúar 2008. En mörg fyrirtæki innan SA vilja segja samningum upp þar sem forsendur eru brostnar og kom tillaga fram að fresta endurskoðun til loka júní. Í kjarasamningnum er endurskoðunarákvæði sem hljóðar svo:

"Í byrjun febrúar 2009 skal fjalla sérstaklega um framlengingu samningsins fyrir tímabilið 1. mars 2009 til 30. nóvember 2010. Samningurinn framlengist til 30. nóvember 2010 hafi báðar forsendur samningsins staðist.

1. Annars vegar þarf kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði að hafa haldist eða aukist á samningstímanum (tímabilinu janúar 2008 –desember 2008) samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands (sérstök úrvinnsla).

2. Hins vegar þarf verðbólga að hafa farið lækkandi. Með lækkandi verðbólgu er átt við að verðbólga innan ársins 2008 þ.e. 12 mánaða verðbólgan í desember 2008 sé lægri en 5,5%. Ennfremur að verðbólga á 6 mánaða tímabilinu ágúst 2008 –janúar 2009 sé innan við 3,8%, miðað við árshraða. Nú hefur önnur hvor samningsforsendan eða báðar ekki staðist skal þegar í stað kalla saman fund samninganefndar ASÍ og SA sem leita skal samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn haldi gildi sínu. Nú næst ekki samkomulag og skal þá sá aðili sem ekki vill framlengingu samningsins skýra frá þeirri ákvörðun og fellur þá samningurinn úr gildi frá lokum febrúar 2009, ella framlengist samningurinn til 30. nóvember 2010."

Það er vilji formanna aðildarfélaga ASÍ að hækka laun félagsmanna sinna. Ef frestun dugir til þess að atvinnurekendur geti hækkað laun þá er það þess virði að reyna þá leið.