Saga FRV

Félag rafeindavirkja var stofnað 16. janúar 1988. Stofnfélagar voru 387. Félagið er landsfélag og í dag eru félagsmenn um 800. Félag rafeindavirkja varð til við sameiningu stéttarfélaga útvarpsvirkja, símvirkja og skriftvélavirkja. Félagið er eitt af aðildarfélögum Rafiðnaðarsambands Íslands. 

Útvarpsvirkjar stofnuðu Félag útvarpsvirkja 10. janúar 1938 og var það fagfélag sveina og meistara. 6. nóvember 1968 var stofnað Sveinafélag útvarpsvirkja sem var stéttarfélag sveina. 5. júní 1980 var nafni félagsins breytt í Sveinafélag rafeindavirkja sem var síðan eitt af félögunum sem sameinuðust í Félagi rafeindavirkja. 

Símvirkjar voru upphaflega í Félagi íslenskra símamanna sem var stofnað 27. febrúar 1915. 12. febrúar 1948 er félaginu skipt upp í deildir, í Reykjavík var skipt upp í deildir eftir faghópum. Símvirkjar og aðrir tæknimenn fóru í deild 5. 26. apríl 1974 stofna nokkrir símvirkjar á almenna markaðinum Félag íslenskra rafeindavirkja sem starfaði til 2.október 1980 er það sameinaðist Sveinafélagi rafeindavirkja. 

Vorið 1980 stofna nokkrir rafeindavirkjar Símvirkjafélag Íslands sem starfaði til ársins 1985 er það sameinaðist Sveinafélagi rafeindavirkja. Það voru miklar hræringar á þessum tíma og á árunum 1984 og 1985 ganga mjög margir símvirkjar úr Félagi íslenskra símamanna yfir í Sveinafélag rafeindavirkja. 

Félag skriftvélavirkja var stofnað 9. apríl 1963 og var fagfélag meistara og sveina. 20. febrúar 1975 var Félag íslenskra skriftvélavirkja stofnað og var það stéttarfélag sveina. 5. júní 1986 var nafni félagsins breytt í Félag rafeindavirkja á tölvusviði sem var eitt af félögunum sem sameinuðust í Félagi rafeindavirkja.